Heim UmfjöllunUmfjöllun annað Microsoft Ergonomic Sculpt Lyklaborð + mús

Microsoft Ergonomic Sculpt Lyklaborð + mús

eftir Gestapenni

Vinir okkar hjá Opnum kerfum buðu okkur að prófa nýtt sett sem inniheldur lyklaborð og mús frá Microsoft. Þetta er Microsoft Ergonomic Sculpt settið en margir kannast án efa við Microsoft Ergonomic Keyboard 4000 lyklaborðið sem hefur verið vinsælt um nokkurt skeið meðal skrifstofufólks og þeirra sem vinna mikið við tölvur.

Hér er hægt að sjá upplýsingar um Ergonomic Sculpt hjá Microsoft en settið fæst í OK Búðinni (Opin Kerfi) og kostar 19.900 kr.

 

Hvað er í kassanum?

Settið inniheldur lyklaborð ásamt plaststykki til þess að hækka það upp að framan, sér talnaborð, mús og USB sendi.

Lyklaborðið sem ég fékk er með hefðbundna norræna takkaskipan. Pláss er sparað með því að láta F-takkana deila hlutverkum með hefbundnum flýtitökkum sem hafa virkni á borði við að hækka og lækka hljóð, hefja leit, Windows 8 og 8.1 miðaða hluti eins og deila (e. “Share”), tæki (e. “Devices”) og stillingar (e. “Settings”) sem er venjulega hægt að nálgast gegnum flettivalmyndina efst uppi hægra megin í Windows 8 og 8.1.

Það er lítill takki efst hægra megin til þess að breyta á milli þess hvort takkarnir eru hefðbundnir F-takkar eða flýtitakkar (en ekki sér Fn takki eins og er oft á fartölvum).

Talnaborðið er ekki fast við lyklaborðið sem sparar enn frekar pláss og er mjög velkomið að mínu mati. Það inniheldur hefðbundna takka eins og á reiknivélum ásamt flýtitakka fyrir reiknivél og backspace. Ég nota talnaborðið örsjaldan á hefðbundnu lyklaborði og að geta tekið það frá finnst mér mjög þægilegt.

Það tók mig einnig smá stund að finna finna USB sendinn fyrir lyklaborðið og músina þegar ég opnaði kasann þar sem hann er geymdur innan í músinni, en eftir á að hyggja verður að segjast að það er mjög þægilegt þegar maður tekur músina með sér eins og t.d. þegar unnið er með fartölvu. Þá er sendirinn einfaldlega geymdur inni í músinni og stendur þar af leiðandi ekki út úr fartölvunni á meðan hún er í flutningum eða týnist einhversstaðar í töskunni.

Settið virkar með Windows 7 og 8 og virkar að flestu leyti á Mac og Linux, en sum virkni er einungis í boði á Windows 7 og 8.

 

Afpökkun á Microsoft Sculpt Ergonomic Desktop settinu

Afpökkun á Microsoft Sculpt Ergonomic Desktop settinu

Hönnun

Lyklaborðið lítur einstaklega vel út að mínu mati og tekur sig vel út á skrifborði, sérstaklega þar sem það er þráðlaust. Útlitið er framúrstefnulegt, en lyklaborðið er ekki nærri því jafn mikill hlunkur og Microsoft Natural Ergonomic Keyboard 4000 sem ég er vanur að nota. Lyklaborðið er samt sem áður massíft og virkar ekki eins og eitthvað plastdrasl, heldur hefur góða þyngd og rennur ekki auðveldlega til á skrifborðinu, þökk sé þyngdinni og gúmmitökkum á botninum. Lófapúðinn er úr þægilegu og mjúku svampkenndu efni sem styður vel við lófa og heldur þægindunum þó svo að t.d. lófinn svitni aðeins.

Takkarnir á lyklaborðinu er grynnri en á hefðbundnu lyklaborði, og kem ég aftur að því síðar.

Músin lítur við fyrstu sín svolítið undarlega út. Hún er frekar kúlulaga og virkar óvenju stutt. Það þýðir þó ekki að hún sé óþægileg heldur þvert á móti, þá er músin mjög þægileg í notkun.

mk_SEDT_otherviews03

Uppsetning:

Ég var nú þegar með Mouse and Keyboard Center uppsett vegna Ergonomic 4000 lyklaborðs svo nánast um leið og USB kubbnum var stungið í samband voru músin og lyklaborðið tilbúið til notkunar. Ekkert vesen og gæti ekki verið einfaldara! Ef menn eru með Microsoft mús og/eða lyklaborð þá mæli ég eindregið með Mouse and Keyboard Center hugbúnaðinum til þess að geta auðveldlega stillt flýtitakka og einnig breytt t.d. því hvað miðjumúsatakkinn gerir þegar er smellt á hann o.s.frv.

 

Lyklaborðið

Ég vinn sem forritari og er því frekar kröfuharður á lyklaborð. Ég hafði smá áhyggjur þegar ég sá þetta lyklaborð fyrst, og velti fyrir mér hvort þægindum hefði verið fórnað fyrir útlit. Ég er ánægður að viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér. Þetta lyklaborð er einstaklega þægilegt í notkun. Ég lýsti því áður að takkarnir væru grunnir og því get ég ekki annað en lýst þeim aðeins betur. Takkarnir eru grynnri en á hefðbundnu lyklaborði, og sérstaklega samanborið við Natural Ergonomic Keyboard 4000, og ég hafði því áhyggjur af því að fá of mikinn “fartölvufílíng” af því að nota þetta lyklaborð. Takkarnir komu mér þó skemmtilega á óvart. Tíminn sem það tekur að ýta á takkana er styttri án þess að fórna tilfinningunni við hefðbundið lyklaborð sem er mjög skemmtilegt. Það er svolítið erfitt að lýsa þessu í orðum en þó svo að takkarnir séu grynnri þá eru þeir mátulega stífir og að vantar ekkert upp á svörunina. Ég virðist ekki gera fleiri innsláttarvillur eða rekast óvart í takka.

Lyklaborðið og músin eru þráðlaus. Þessi eina setning var næg til þess að framkalla hjá mér efa varðandi settið því mín reynsla af þráðlausum lyklaborðum hefur ekki verið sérstaklega góð. Sambandsleysi, bil milli þess að ýtt er á takka og að texti birtist á skjánum, tíðar batterísskiptingar og að takkar “festist inni” er eitthvað sem flestir sem hafa notað þráðlaus lyklaborð hafa lent í. Það er mér því sönn ánægja að segja að ég hef ekki rekist á neitt slíkt vandamál hingað til. Lyklaborðið svarar vel og í notkun hef ég ekki rekist á neitt af þessum vandamálum. Þetta einfaldlega svínvirkar! Batterísendingin á eftir að koma í ljós.

Ég átti í smá erfiðleikum í byrjun við að hitta á rétta takka en það er eðlilegt þegar skipt er yfir í öðruvísi lyklaborð. Það vandist fljótt en ef það er eitthvað sem ég gæti sett út á þá er það að Alt Gr, Menu og Ctrl takkarnir hægra megin eru helst til of stórir. Þegar ég ætla að ýta á vinstri örina rekst ég ítrekað í Ctrl í staðinn sem pirrar mig svolítið. Einnig átti ég það oft til að ýta á “+” í stað “Enter” þar sem “Enter” takkin er full lítill fyrir minn smekk. Á öðrum degi var ég samt strax orðinn öruggari í að hitta á rétta takka, og með frekari notkun lærir vöðvaminnið fljótlega lyklaborðið.

Einnig fer í taugarnar á mér að þurfa að ýta á rofa efst á lyklaborðinu til þess að skipta á milli F-takkanna og flýtitakkanna. Ég hefði frekar viljað hafa “Fn” takka eins og er á fartölvum til þess að skipta.

Að auki finnst mér vanta á lyklaborðið baklýsingu. Það hefði verið mjög þægilegt að hafa baklýsingu þar sem ég dimmi stundum ljósin þegar ég er að vinna eða spila tölvuleiki. Það er þó enginn “dealbreaker” að það vanti þar sem það er sjaldan til staðar á venjulegum skrifstofulyklaborðum.

mk_SEDT_otherviews05

Músin

Músin kom mér á óvart. Hún kom mér sérstaklega á óvart þar sem að hún virkaði alls ekki þægileg þegar ég opnaði pakkann. Í útliti lítur hún nánast út eins og stór svört kúla. Staðreyndin er þó að hún er alveg stórfín. Hún liggur vel í lófanum og úlnliðurinn beygist nánast ekki neitt þegar lófinn er lagður á músina heldur helst beinn. Músin er með venjulega músartakka ásamt skrunhjóli sem virkar á sama tíma sem miðjutakki. Skrunhjólið skrunar að sjálfsögðu upp og niður og einnig til hliðanna. Það er mátulega mjúkt en hefur samt þessa stífni þannig að maður rennur ekki óvart á hjólinu og skrunar.

Á þumlinum er líka “Back” takki sem er hálf-inngreyptur í gripið. Hann er samt sem áður þægilegur að ýta á. Fyrir ofan hann er “Start” takki sem ég verð að viðurkenna að ég nota lítið. Ég er svo vanur að nota “Start” takkann á lyklaborðinu að ég sé ekki alveg tilganginn í honum á músinni. Hann þvælist þó ekkert fyrir heldur er einungis ofaukið svo hann fer ekkert í taugarnar á mér. Hann brýtur þó aðeins upp útlitið á músinni. Lokið undir músinni er svo fest með segli og er þægilegt að taka af en festist samt sem áður vel á, þannig að það er auðvelt að skipta um rafhlöður eða ganga frá USB sendinum ef maður ætlar að taka músina með sér.

Músin er með svokalla BlueTrack tækni sem gerir músina nákvæmari en hefðbundin Laser tækni. Einnig er hægt að nota músina á nánast hvaða yfirborði sem er og lenti ég ekki í neinum vandræðum með að nota hana hvort sem var með eða án músamottu á viðarborði. Eina sem vildi stundum gerast var að þegar ég var að færa hægri höndina af lyklaborðina á músina átti ég það til að rekast í hana með handarbakinu sökum þess hve hátt hún nær frá borðinu, en ég er einmitt vanur að nota mús sem er mun lægri. Við það átti ég það til að henda músinni til á borðinu en ég skrifa þetta frekar á það að eiga eftir að venjast músinni betur en einhver galla við músina sjálfa.

Músin er án efa það besta við þennan pakka en hana á einnig að vera hægt að fá eina og sér. Hún fer einstaklega vel í hendi, er mjög þægileg og bregst vel við. Ég varð ekki var við neinar tafir á því að hreyfa músabendilinn eða því að ýta á takkana á músinni.

mk_SEM_otherviews01

Hugbúnaður:

Settið notast við Microsoft Keyboard and Mouse Center hugbúnaðinn sem er mjög góður. Það er auðvelt að stilla og breyta flýtitökkum en það væri gott að geta still fleiri flýtitakka á lyklaborðinu. Það er í raun bara einn takki sem er hægt að breyta virkninni á og það er Play/Pause takkinn sem er hægt að stilla á að t.d. opna forrit, keyra Macro eða slökkva á virkninni.

MousndAndKeyboardCenter1

 

 

Niðurstaða:

Þetta er stórfínt sett frá Microsoft. Lyklaborðið er mjög þægilegt í notkun en nokkrir smáhnökrar á því eins og rofinn fyrir F-takkana og lítill “Enter” takki draga niður í annars frábærri hönnun. Mér finnst samt stór kostur að gera fært talnaborðið frá og þar af leiðandi haft músina nær lyklaborðinu en ella. Músin er stórkostleg. Hún er einstaklega þægileg, rennur vel og virðist í alla staði mjög vel hönnuð. Lyklaborðið toppar ekki gamla góða Microsoft Ergonomic Keyboard 4000 í virkni en er á margan hátt betra, t.d. í útliti og er auðvitað þráðlaust og getur vel virkað sem stofustáss t.d. með HTPC tölvu. Ég get hiklaust mælt með þessu setti fyrir þá sem vilja gott þráðlaust lyklaborð og mús sem er þægilegt í notkun og gerir það sem það á að gera vel.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira