HTC One

eftir Jón Ólafsson

Fyrst voru það eingöngu Windows Phone síman, síðan Blackberry og núna er það Android sími… hvað kemur næst

Félagar okkar hjá emobi höfðu samband og buðu þeir okkur að prófa HTC One sem er nýlegur sími frá HTC en emobi eru með nokkuð fjölbreytt úrval af símtækjum sem vert er að skoða. Lapparinn hafði ekki tækifæri til að prófa hann sjálfur en Haraldur Helgi (Halli) leysti mig af hólmi að þessu sinni, hér má sjá frumraun hans í æðispennandi afpökkun á HTC One.

 

 

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar undirritaður fékk HTC One í hendurnar var hversu vel hann var pakkaður inn. Verandi fyrsti HTC síminn sem ég prófa kom mér verulega á óvart hversu mikið var lagt í umbúðirnar. En það var auðvitað aukatriði.

Síminn er kannski ekki lítill en eftir að hafa verið með iPhone í nokkra mánuði verð ég að segja að HTC One fer mun betur í vasa en iPhone. Kúpt álbakið gefur manni einnig þá tilfinningu að hann sé sterkbyggður og fari vel í vasa.
Hér á eftir verður ítarleg umfjöllum um þennan síma.

 

Hönnun & vélbúnaður

Hvað hönnun á símtækinu sjálfu varðar kemur glögglega í ljós um leið og maður handleikur tækið að hér er um að ræða vel smíðað og útpælda hönnun. Línur sem skerast mætast á þann hátt að nær ómögulegt ætti að vera fyrir ryk, hár og annað eins að komast innundir skjáinn eins og er þekkt á mörgum öðrum símtækjum. Álbakið á símanum veitir manni öryggistilfinningu í þá áttina að þó maður reki sig aðeins utan í þá kemur síminn ekki brotinn uppúr vasanum.

Hér má sjá strákana hjá PhoneBuff taka smávegis prófun á símanum hvað hann þolir.

4

Undanfarið hef ég notað iPhone 4S og fannst mér svolítið furðulegt að fara aftur yfir á Android og þess þá heldur Android síma sem er þetta stór og hraðvirkur. Á fyrsta degi fann ég mikinn mun milli iPhone og HTC. Sá síðarnefndi ber af í vélbúnaði en HTC menn hafa smellt ekki nema 2GB „undir húddið“ á þessu apparati og þar að auki er örgjörvinn ekki af verri endanum en síminn er með fjórkjarna 1.7GHz Krait 300 örgjörva og Adreno 320 skjástýringu.
En þar sem nýjasti síminn til skoðunnar hér á Lappari.com er Nokia Lumia 925 skulum við bera þessa síma saman á einfaldan hátt hvað varðar þyngd og þykkt.

Samanburður á þyngd og þykkt milli Lumia 925 og HTC ONE og iPhone 5.
Þyngd
Lumia 925: 138gr
HTC One: 143 gr
iPhone 5: 112 kg

Þykkt
Lumia 925: 129 x 70.6 x 8.5 mm
HTC One: 137.4 x 68.2 x 9.3 mm
iPhone 5: 123.8 x 58.6 x 7.6 mm

 

Tengimöguleikar

Síminn er eins að önnur flagskip vissulega hlaðinn ýmiskonar aukabúnaði og leiðum til þess að tengjast öðrum hlutum. Þar má nefna bluetooth 4.0, NFC (Near field communication), hröðunarmælir (e.accelerometer), snúðvísir (e.gyroscope) og GPS. Að auki hefur IR sendi verið komið haganlega fyrir í símanum svo hægt sé að stjórna tækjum á borð við sjónvarp, dvd spilara og VHS tækjum.
Einnig er tækni í símanum sem kallast Miracast en hún byggir á því að hægt er að kaupa þekkil (e.dongle) sem tengdur er við sjónvarp. Síminn tengist því næst þráðlaust við sjónvarpið í gegnum þekkilinn og þá er hægt að spila efni beint úr símanum í sjónvarpinu.

5

Að auki fylgir símanum 25GB geymslupláss á Dropbox.com sem er mjög fínt fyrir myndaóða eins og mig því síminn hleður öllum myndum af símanum beint í Dropbox í hvert skipti sem ég tengist þráðlaus neti og þannig á ég alltaf afrit af myndunum mínum.

 

Rafhlaða og lyklaborð

Rafhlaðan kom mér á óvart og finnst mér hún vera mjög endingargóð miðað við það sem ég er vanur. Undirritaður setti „allt í botn“ á fyrsta degi og setti upp forrit á borð við Viber, Skype og Spotify. Á þeim Android símum sem hafa verið í fórum mínum hingað til hefur rafhlaðan enst í um það bil 6 tíma einungis með Skype í gangi.
Rafhlaðan entist mér í 15 tíma á „fullu gasi“ en í lok dags var hún komin í „Power saver mode“ sem er mjög þægilegt og auðvelt að ræsa/slökkva á.
Ég gerði mér svo að leik einn daginn að hafa slökkt á Viber, Skype og Spotify auk þess sem ég notaði myndavélina og Facebook appið lítið sem ekkert. Þá entist síminn á einni hleðslu heilan vinnudag og fram til klukkan 11 morguninn eftir en þá varð ég að setja hann í hleðslu vinnu minnar vegna.
Þeir Android símar sem ég hef átt hingað til hafa aldrei búið yfir annarri eins rafhlöðuendingu, að minnsta kosti ekki meðan ég hafði þá í minni umsjá.

2

Hér gefur að líta uppgefinn endingartíma rafhlöðunnar hvort sem er á 2G eða 3G (Athugið að ekki eru inni í þessu WiFi tölur né 4G).

  • Tal yfir 2G: Allt að 27 tímar
  • Tal yfir 3G: Allt að 18 tímar
  • Biðtími á 2G allt að 500 tímar
  • Biðtími á 3G allt að 480 tímar

Hljóð og mynd

Skjárinn í þessum síma er náttúrlega ekkert annað en magnaður. Hann er bjartur, skýr og snertiflöturinn er ótrúlega góður.
Síminn hefur hreint út sagt magnaða hátalara sem koma frá Beats Audio. Þessir hátalarar og hugbúnaðurinn sem stýrir þeim gerir það að verkum að síminn er í algjörum sérflokki hvað hljómgæði og „hávaða“ varðar. Fólk sem ég hef umgengist undanfarið og hefur handleikið símann nefnir yfirleitt alltaf Beats logoið á nafn þegar það sér það og spyr útí það. Sjálfur var ég ekkert gríðarlega fróður um þetta kerfi en hér má sjá gott myndband sem útskýrir hvað Beats Audio er.

Myndavélin í símanum er mjög góð að mínu mati, hvort heldur sem er ljósmyndatakan eða myndbandsupptakan.
Helst ber að nefna hversu auðvelt vélin á með að koma réttum litum fram á mynd. Og má sjá þess glögg merki á þessari mynd:

2013-08-28 17.42_1

Myndavélin býður uppá ýmsar mismunandi stillingar, til dæmis Macro, landslags, nætur og Portrait auk þess sem sérstök textamyndataka er í boði. Næturstilling er til staðar sem og Panorama fídus. Einnig er boðið uppá HDR stillingu sem gefur myndum strax meiri dýpt og reyndar oft á tíðum eilítið ýktan blæ, sem er hugsanlega það sem menn eltast við með HDR myndatökum.
Hér má sjá ljósmynd sem er tekin með „Normal“ stillingu og þar fyrir neðan má sjá mynd tekna strax á eftir með „HDR“ stillingunni á.

„Normal Scene“

„Normal Scene“

 

„HDR“

„HDR“

Myndbandsupptakan í vélinni er nokkuð góð og býður uppá ýmsa möguleika. Þar má nefna „Venjulega upptöku“, „Slow Motion“, „Fast HD“ og „ Video HDR“.
Hér má sjá það sem HTC kalla „Fast HD“ en það eru 60 fps eða 60 rammar á sekúndu.

Að auki má nefna að HTC hafa hannað eitthvað sem kallast Zoe en það er í raun sambland ljósmyndar og myndbands. Þannig tekur síminn ljósmynd og myndband á sama tíma, í 3 sekúndur.

 

Helstu gallar við myndavélina er hversu björt hún vill oft verða þegar ljósmyndir eru teknar. Auk þess sem fókusinn er smá stund að venjast.
Eitt hinsvegar sem ég hef ekki ennþá náð að vinna með nógu vel er fókusinn á myndbandsupptöku. Frá verksmiðju er síminn stilltur þannig að um leið og ýtt er á upptöku læsir hann fókusnum. En iðulega þegar ýtt er á upptöku breytist fókusinn skyndilega og læsist annarsstaðar en ætlað var, þannig að  myndbandið er úr fókus og svotil ónýtt.

 

Margmiðlun og leikir

Tónlistarspilarinn sem kemur með símanum er mjög auðveldur í notkun og þægilegt að skruna í gegnum hann. Það er hægt að stilla, breyta og bæta hljóðið sem gæti hentað fyrir þá sem vilja. Myndbandsafspilun í símanum er mjög þægileg og spilar síminn flest þau form af myndböndum sem finnast á stafrænu formi í dag. Auk þess er hægt að fá gegn vægu gjaldi lítinn pung frá HTC sem tengist beint í HDMI tengi á sjónvarpi og gerir notandanum kleift að spila myndbönd, tónlist og ljósmyndir í sjónvarpinu á meðan hann sinnir einhverju öðru í símanum sjálfum eins og tölvupósti.

1

Líkt og Windows menn&konur hafa gert þá er svokallað Barnahorn í símanum sem býður uppá tímabundna læsingu á símanum og leikjahorn á meðan læsingu stendur. Hægt er að kaupa barnvæna leiki sem HTC eru búin að velja og að auki fá börnin að velja einn ókeypis leik á viku.

HTC er 32GB innra geymslurými sem nýtist undir stýrikerfi eða ljósmyndir og annað margmiðlunarefni. Það má með sanni segja að það sé galli að HTC One sé ekki með rauf fyrir Micro-SD… mér finnst þetta furðuleg ákvörðun en þetta er samt algent í mörgum dýrari símum.

 

Hugbúnaður og samvirkni

Að venju hafa HTC menn&konur sett sitt eigið viðmót yfir stock Android stýrikerfið og heitir það HTC Sense. Það eru mjög misjafnar skoðanir á HTC Sense og látum við notendum eftir að meta það en að okkar mati gerir það kerfið fallegra og notendavænna en það er allt á kostnað afkasta. Mjög spennandi er hvernig veðurspáin líður um skjáinn til að tilkynna hvernig viðrar og einnig hvernig þeir hafa horft í smáatriðin við hönnun á HTC Sense.

Að auki hefur verið komið svokölluðu BlinkFeed á heimaskjáinn. Það fyrirbæri fannst mér strax á fyrsta degi einungis vera stæling á mjög vinsælu appi sem heitir FlipBoard.
Hér gefur að sjá lítið kynningarmyndband um BlinkFeed.

Í þann stutta tíma sem ég hef haft HTC One til afnota hef ég samstillt símann við Exchange póst og Gmail auk þess sem ég setti upp Simnet póstinn minn á hann. Öll vinna í póstumhverfi er mjög einföld og þægileg. Það helsta sem ég get fundið að þessari deild er að Google eru að breyta Gmail pósthólfinu eitthvað svo að nú flokkast pósturinn meira en vanalega og í fullri hreinskilni er sú breyting óþolandi. Hinsvegar hefur það ekkert með símtækið sjálft að gera heldur einungis Gmail Appið sem slíkt.

 

Niðurstaða

Niðurstaða er byggð á samanburði við aðra Android síma en að mínu mati er þetta góður sími með endingargóða rafhlöðu, fer þónokkuð vel í hendi og er sterkbyggður. Hann býr yfir öllum þeim kostum sem maður getur reiknað með í Android snjallsíma og mundi ég skoða þennan alvarlega, öflugur sími á viðráðanlegu verði miðað við keppinautana. Góðir aukahlutir fáanlegir auk þess sem öll þjónusta í kringum HTC er til fyrirmyndar.

 

 

Það er samt nokkur atriði sem okkur langar að vekja athygli á

  • Sími með fjórkjarna örgjörva og 2GB af vinnsluminni ætti ekki að hika (lagga) í einföldum vafri um stýrikerfið.
  • Sem margmiðlunar/myndavélatæki þá er vonbrigði að vera ekki með minnisrauf
  • HTC Sense er eins flott og það er slæmt og viðtökur notenda virðist vera mjög misjöfn
  • Síminn kemur með Android 4.1.2 en það er mögulegt að uppfæra hann í 4.2.2 en stóra spurningin er með framtíðaruppfærslur. HTC hefur sagt að síminn verði líklega uppfærður í 4.3 sem kom út í Júlí en ekkert er vitað um 4.4 eða 5.0 þegar það kemur á næsta ári

Þetta eru samt atriði sem flestir ættu að geta lifað með og miðað við aðra Android síma sem til sölu er í dag þá er þessi einn af þeim betri.

 

Hvað finnst þér?

Þú hefur kannski áhuga á þessu...

2 athugasemdir

teddi 07/09/2013 - 09:25

þú flashar þennan bara með google play edition útgáfunni, losnar við sense-ið og færð uppfærslur mun fyrr 🙂

Reply
Lappari 08/09/2013 - 22:18

Það er rétt og hljómar einfalt og þæginlegt… en þetta er bara fyrir advance notendur og mæli ég alls ekki með þessu af mjög mörgum ástæðum 🙂

Það þarf að “root´a” símann með öllum þeim öryggisáhættum sem það hefur í för með sér. Taka afrit af öllu, strauja símann, hlaða niður Android útgáfu sem er kokkuð í bílskúrnum hjá einhverjum sérfræðingi og setja það upp…

Er þetta ekki svipað og að hlaða niður stýrikerfi af PirateBay og reikna með að allt virki og að það sé 100% öryggt 🙂

Reply

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira