Heim Microsoft Að velja sér fartölvu

Að velja sér fartölvu

eftir Gunnar Ingi Ómarsson

Ein spurning sem við hérna hjá Lappara heyrum dálítið oft er “Hvernig tölvu á ég að kaupa mér?” Það virðist oft loða við þessa spurningu eins og það sé ein töfralausn fyrir alla notendur eða þá að við vitum nákvæmlega hvað viðkomandi er að leita sér að án þess að hafa sagt okkur neitt annað. Þess vegna datt mér í hug að nú væri tilvalið að hjálpa fólki að afla sér upplýsinga og í leiðinni einfalda okkur lífið aðeins.

 

Greining á þörfum

Það fyrsta sem þú þarft að hugsa um er hvað þú ætlar að nota tölvuna í, sem þýðir að þú gætir líka þurft að horfa aðeins fram í tímann. Það mikill munur á því hvort þú ert námsmaður að leita þér að skólavél í mikla og breiða notkun eða hvort þú ert að leita þér að einfaldri heimilistölvu sem á bara nota í Facebook, heimabanka og fréttalestur. Hugsaðu líka til þess hvort þú vilt/þarft að hafa færanleika og þá hversu mikinn færanleika þú ert að leita þér að. Spjaldtölvur eru mikið í umræðunni þessa dagana og hafa verið það núna í dágóðan tíma en fólk er ekki alveg visst um hvort það henti sér eða hreinlega hvernig á að nota þær.

 

Flokkun

Internet- eða vafranotkun er svona næst því sem við köllum grunnnotkun og fyrir þess háttar notkun þarf ekki neina ofurgræju í svoleiðis vinnslu. Ef þetta er það eina sem þú ætlar að nota tölvuna í þá er hægt að fara í ódýrustu far- eða borðtölvuna og má jafnvel skoða ódýra spjaldtölvu.

Internetnotkun og vídeógláp er svona næsta skref fyrir ofan og þá er sniðugt að fara skoða eitthvað sem er aðeins dýrara. Ef þú ert á annað borð að fara nota vélina til að horfa á vídeó þá viltu horfa aðeins til þess að hafa góðan skjá. Hérna er því best að fara yfir það sem er í boði og skoða sérstaklega skjáinn. Ef þú ert að leita einhverju þægilegu, og meðfærilegra en fartölvu, þá má skoða spjaldtölvu.

Ef við bætum nú ofan á, áðurnefna notkun, hluti eins og ritvinnslu og töflureikni þá væri sniðugt að horfa á vélar sem eru með aðeins auknu vinnsluminni. Hérna þarf svosem ekki að vera horfa til einhverjar mikillar viðbótar við skrefið á undan en samt gott að hafa í huga. Aukið vinnsluminni væri sérstaklega nýtanlegt fyrir þá sem gætu verið að fara í þunga töflureikna (excel) eða tölfræðivinnslu í SPSS eða R, tengt námi. Það er hægt að notast við öflugar spjaldtölvur í þessum tilfellum en þær eru oftar en ekki frekar takmarkaðar þegar kemur að staðværu geymsluplássi.

En það eru ekki allir sem eru bara að bæta við sig ritvinnslu og töflureikni í námi. Fyrir þá sem eru að horfa til hljóð- og/eða myndvinnslu þá þarf aðeins að fara auka við getuna á tölvunum. Hérna viljum við horfa aðeins meira til vinnsluminnis og öflugs örgjörva, þá örgjörva með góðu cache. Þessi vinnsla er oft á tíðum frekar frek á vélbúnað og pláss þannig að það þarf líka huga að vera með góðan harðan disk og ef farið er í SSD disk þá þarf líklegast að fjárfesta í auka geymslu disk. Það má svo ekki gleyma að fjárfesta í góðum skjá ef um myndvinnslu er að ræða.

Það er ekki oft sem við fáum fólk í graffískri vinnslu að leita ráða þar sem þau vinna oftar en ekki hjá stærri fyrirtækjum sem sjá um vélbúnaðarþarfi þeirra en endrum og sinnum heyrum við í sjálfstætt starfandi einstaklingum sem vilja fá frekari ráðgjöf. Hérna þarf að fara huga að góðu skjákorti líka en þá erum við yfirleitt kominn í dálítið dýran búnað enda kosta Quadro kortin, sem henta best í svona vinnslu, aðeins dýrari en venjuleg skjákort.

Síðasti hópurinn er tölvuleikjaáhugmaðurinn en þeir eru jafnvel ennþá sjaldséðari, enda yfirleitt með frekar fastmótaða hugmynd um það sem þeir vilja. Það sem þarf yfirleitt að horfa til hérna er alveg heilstæð pæling, góður örgjörvi, nægt vinnsluminni, flottur harður diskur (SSD) og öflugt leikjaskjákort eins og tekið er fyrir hér. Það er svo mjög einstaklingsbundið með skjáina fyrir þessar græjur, oftar en ekki er þetta eitthvað sem viðkomandi hefur pælt aðeins í en fyrir hina þá mæli ég með skjá með lágum svartíma og háum HZ.

 

Hvað ertu að fá fyrir peninginn?

Þegar búið er að greina þörfina og búið að sjá ca. út hvaða tölvur henta þá fer fólk oftar en ekki að spá í verðinu, hvað það er að fá fyrir auka peninginn og afhverju ódýrari vélinn er ekki nóg. Stundum er ódýrari vélin alveg nóg, sama hversu mikið það er verið að reyna selja þér dýrari týpuna, en með hærra verði fylgir oftar betri vélbúnaður og betur byggð vél (e. build quality). Ódýrari vélin þýðir ekki alltaf styttri líftími og dýrari vélin þýðir ekki alltaf lengri líftími, það sem spilar stórt inní líftíma er meðferð á búnaðinum og að sjálfsögðu einhver heppni.

 

Hvar á ég að kaupa tölvuna?

Þessi spurning er líka klassísk og kemur fram í samtali í svona 98% tilfella þegar spurt er til ráða. Það er í raun ekkert eitt rétt svar við þessari spurningu heldur spila margir nokkrir þættir inní hérna. Það sem vegur þyngst er þjónusta, hvar færðu bestu þjónustuna því það á eftir að koma sá tími sem þú vilt láta gera eitthvað við vélina og ef það er í ábyrgð þá viltu hafa góða þjónustu. Utan ábyrgðarviðgerða er oftar en ekki líka sniðugt að fara með vélina til þeirra sem eru með mestu þekkinguna á búnaðinum.

Þá er spurning um hvernig vél þig langar í. Sértu mikið fyrir Dell vélar, Lenovo vélar, Acer vélar eða Packard Bell þá myndi ég mæla með því að kaupa beint af umboðsaðila, já einmitt útaf þjónustunni. Það er líka hægt að spyrja vini og vandamenn hvaða reynslu þau hafa af vissum vélum ef þú vilt frekari álit.

Svo er einn möguleikinn í viðbót, sértu ekki með mikinn pening á milli handanna, það er að finna ódýrasta verðið á þeirri vél sem þig langar til að kaupa. Við höfum ekki alltaf efni á því að gera það sem er best eða hentugast og því verður ódýrasti valmöguleikinn hreinlega að duga.

Aðalatriðið er að finna söluaðila sem þú treystir til að selja þér tölvu fyrir það verkefni sem hún á að leysa, ekki of dýra en samt nægilega öfluga í verkið.

 

Auka

Við höfum áður tekið saman smá pistil um tryggingar sem vert er að líta yfir ef keypt er fartölva eða spjaldtölva, til vonar og vara ef eitthvað kemur fyrir sem ábyrgð dekkar ekki.

USB kubbar eru ekki alltaf öryggasti geymslumiðillinn á verkefnum eða skjölum og þá er sniðugt að skoða hvaða skýjadrif eru í boði og hvað hentar þér, hérna er smá samantekt í þeim málum.

Það fylgir oftar en ekki fartölvum og spjaldtölvum dálítil ferðalög og í þeim tilfellum er betra að hafa eitthvað utan þær til að verja gegn hnjaski og geta geymt alla fylgihluti eins og hleðslutæki. Töskur eru rosalega einstaklingsbundnar og algert smekksatriði hvers og eins, hérna myndi ég bara skoða frágang á töskunum bara og vanda valið.

Mús og lyklaborð er náttúrulega staðalbúnaður á borðtölvum en fyrir fartölvur og spjaldtölvur er þetta aukabúnaður. Það er allt gott og blessað að sleppa þessum aukabúnaði en það getur verið mjög þægilegt að nota þetta heima fyrir eða á heimaskrifstofunni. Það verður að minnast líka á aukaskjáinn svona þar sem stærð á fartölvuskjáum, eða spjaldtölvuskjáum, er ekki neitt rosalega stórir þá er vert að skoða að vera með aukaskjá heima til hafa meira pláss að vinna með, en við tókum smá pistil saman um aukaskjá hérna. Með þessu öllu er líka hægt, í sumum tilfellum, að fá tengikví sem hægt er að smella fartölvunni, eða spjaldtölvunni, í og allur aukabúnaður er tengdur í tengikvínna.

Við skulum svo enda þetta á einum af mikilvægustu hlutanum í þessu öllu, vírusvörnin. Ég get ekki ítrekað nægilega mikið hversu mikilvægt það er að hafa góða vírusvörn á tölvunni sinni. Að sleppa við vesenið sem fylgir vírussmiti er vel þess virði að borga aðeins aukalega fyrir vírusvörn eða fá einhvern til að setja hana upp. Það fylgir þessum vírusvörnum stundum eilítið bras, aðallega þegar eldveggur vírusvarnarinnar lokar fyrir ýmsar þjónustur, en blikknar samanborið vesenið sem fylgir vírussmiti. Vírusvörnin ræður samt ekki við allt og því þurfa notendur að passa sig líka.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira