Heim Föstudagsviðtalið Friðrika Hjördís Geirsdóttir

Friðrika Hjördís Geirsdóttir

eftir Jón Ólafsson

Samkvæmt venju þá er komið að vikulegu viðtali hér á Lappari.com í viðtalsseríu sem kallast einfaldlega Föstudagsviðtalið en þetta er viðtal númer 53 í röðinni. Hugmyndin er að taka viðtal við “venjulegt fólk”,  harða nörda sem og einstaklinga sem eru áberandi í tölvu og tækniheiminum, leyfa þeim að segja aðeins frá sér og hvað þeir eru að bralla. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hafa þetta létt, skemmtilegt og vonandi áhugavert fyrir lesendur.

Þessar vikurnar erum við að halda uppá ársafmæli á þessum föstudagsviðtölum okkar, þetta byrjaði sem skemmtileg tilraun hjá okkur en hefur unnið sér fastann sess hjá okkur og verður áfram fastur liður. Við höfum tekið viðtöl við tölvukalla og celeb eins og Björn Inga, Gumma Jóh, Katrín AtlaGísla Guðmunds, Atla Jarl, TeddiMargrét Gústvas, Gumma Ben, Hjörvar Hafliða, Doddi Litli, ArnarAÞorstein Baldur, Þorbjörn, Þórarinn, Trausti, Sveinn, GunniAlex og Troy svo eitthvað sé nefnt.

Það er aðeins ein leið til að halda uppá þessi tímamót og það geri ég með því að kynna til leiks öðlingsdömu sem ætti að vera flestum landsmönnum kunnug. Án þess að vilja styggja fyrri viðmælendur þá er Rikka líklega frægasti einstaklingurinn sem hefur komið í viðtal hjá Lapparanum og sá sem ég hef beðið eftir hvað lengst.

 

Þeir sem vilja fylgjast betur með Rikku geta kíkt á Létta Rétti á Facebook eða á Heilsusíðu Vísis

 

 

Hver ert þú og hvaðan ertu?

Ég heiti Friðrika Hjördís Geirsdóttir en er kölluð Rikka. Ég er fædd 29.janúar 1978 í Reykjavík en uppalin á Kjalarnesi. Ég flutti til Reykjavíkur þegar ég var 16 ára og fór þá í Menntaskólann í Reykjavík. Eftir menntaskóla flutti ég til London og fór þar í matreiðslunám í Le Cordon Bleu. Eftir stutt stopp á Íslandi gerði ævintýraþörfin aftur vart við sig og ég fór til Flórens á Ítalíu í hönnunarnám og bjó þar í þrjú ár.

 

Við hvað starfar þú og hvað hefur þú verið að bralla síðustu árin?

Að námi loknu á Ítalíu fór ég að vinna hjá Gestgjafanum og svona í grófum dráttum eftir það þá stofnaði ég, ásamt góðu fólki, matreiðslublaðið Bístró. Ég byrjaði svo að vinna í Íslandi í dag á Stöð 2 árið 2006 og hef verið viðloðandi sjónvarpið síðan. Í millitíðinni eignaðist ég svo tvö börn sem í dag eru 6 og 7 ára.

 

Hvernig er venulegur dagur hjá þér?

Sem betur fer eru þeir aldrei eins, ég þrífst á því að lifa fyrir utan þægindarhringinn. Ég er aftur á móti með tvö börn sem þurfa meiri venjur en ég þannig að ég reyni að halda mig á mottunni svona dagsdaglega. Ég vakna rétt fyrir átta og tek bæði mig og strákana til. Þeir mæta í skólann kl níu og ég fer í vinnuna upp í 365 miðla. Þar bíða mín alltaf skemmtileg og fjölbreytileg verkefni. Ég reyni að komast í líkamsrækt í hádeginu til þess að hressa mig við og brjóta upp daginn. Svo fer ég bara aftur á kontórinn, næ í strákana mín og held heim á leið. Mér finnst nauðsynlegt að ná smá tíma með þeim áður en að þeir fara í háttinn og ég held áfram að vinna. Ég er svo heppinn að vera í vinnu sem að snýst um mitt áhugamál þannig að fyrir mig að vinna á kvöldin er ekki ánauð.

 

Lífsmottó?

,,Innri maður endurspeglar ytri heim” er setning sem að fylgir mér alltaf og í raun er hægt að setja inn í flestar aðstæður sem að maður er í hverju sinni. Þú ert alltaf að endurspegla þina líðan í framkomu þinni við annað fólk og annað fólk sömuleiðis. Hvort sem að það er á jákvæðan eða neikvæðan hátt.

 

 

Wham eða Duran Duran?

Duran Duran í fyrri tíð en svei mér þá þá hefur Wham unnið á í seinni tíð. Ég er greinilega að verða mýkri með aldrinum 😉

 

 

Hvaða stýrikerfi notar þú á vinnutölvunni?

Ég er með Mac book Pro fartölvu sem að ég skil sjaldan við mig. Hún er með 10.9.2 útgáfa af OS X, Mavericks.

 

 

Hvernig síma ertu með í dag?

Ég er mjög commercial og er með Iphone 5, hann er ágætur. Ég reyndar missti símann minn í sjóinn um daginn og þurfti að kaupa mér nýjan, það varð annar Iphone 5 fyrir valinu 🙂

 

 

Hver er helsti kostur við símann þinn?

Það er hægt að hringja úr honum og meira segja fá hringingu. Svo er líka hægt að senda sms og móttaka þau líka…. já svo er líka hægt að taka myndir á hann og auðvitað aðgengi að tölvupóstinum.

 

 

Er eitthvað sem þú þolir ekki við símann?

Já, ég er alltaf að missa hann.

 

 

Í hvað notar þú símann mest?

Hringingar, sms, facebook, instagram, póst, snapchat, spotify, myndavél, evernote,

 

 

Hvernig var fyrsti síminn sem þú fékkst þér?

Ég man nú ekki alveg hvaða týpa af Nokia síma það var en Nokia símar voru það alveg þangað til að ég fékk mér Iphone.

 

 

Ef þú mættir velja hvaða síma sem er, hvaða síma mundir þú velja?

Ég er nú bara nokkuð sátt eins og er … þar til að annað kemur í ljós.

 

 

Hvaða tæknisíðum ef einhverjum fylgist þú reglulega með?

Get nú ekki sagt að ég sé updeituð á þessu sviði. En ég er mikið að skoða tækni sem fylgist með líkamanum svona eins og Garmin úr eða slíka tækni. Mér finnst mikilvægt að geta fylgst með lengd, hraða og púlsi til dæmis.

 

Hvað finnst þér?

Skildu eftir athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Þessi vefur notast við vafrakökur. Samþykkja Lesa meira